Rómantísk fiðlutónist í Hömrum á sunnudag

21. september 2016 | Fréttir

Tveir af fremstu tónlistarmönnum Íslendinga af yngstu kynslóðinni halda mjög áhugaverða háklassíska tónleika í Hömrum nk sunnudag 25.september kl. 17:00 í samvinnu við Tónlistarfélag Ísafjarðar. Þessir ungu tónlistarmenn eru þeir Pétur Björnsson fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri, píanó-, fiðlu- og lágfiðluleikari.

Á tónleikunum verða fluttar þær þrjár fiðlusónötur sem Johannes Brahms samdi fyrir fiðlu og píanó, en þær eru ákaflega rómantískar, ljóðrænar og ástríðufullar eins og við má búast af þessu tónskáldi og að margra áliti með því fegursta sem úr hans penna kom.

Aðgangseyrir að tónleikunum er kr. 2.000, en fyrir öryrkja og aldraða kr. 1.000. Skólafólk 20 ára og yngra fær ókeypis aðgang,

Bjarni Frímann Bjarnason fæddist í Reykjavík 1989. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2009 og Bachelorprófi í fiðlu- og lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands sama ár þar sem kennarar hans voru Guðný Guðmundsdóttir og Halldór Haraldsson. Í kjölfarið nam hann vélaverkfræði við Háskóla Íslands og hljómsveitarstjórn við Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ í Berlín undir handleiðslu Fred Buttkewitz. Bjarni Frímann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, CAPUT, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníulhjómsveit Unga Fólksins, Philharmonisches Orchester Frankfurt a.d. Oder og ýmsum smærri hópum. Hann hefur komið fram sem fiðlu- og lágfiðluleikari á fjölmörgum tónlistarhátíðum bæði innan lands sem utan. Þá hefur hann á seinni árum haslað sér völl sem meðleikari og hefur komið fram sem slíkur m.a. með Angeliku Kirchschlager í Konzerthaus í Vín, leikið fjórhent með Helmut Deutsch í Fílharmóníunni í Berlín og í Vínarborg. Bjarni Frímann stýrði í haust sem leið flutningi á UR_, óperu Önnu Þorvaldsdóttur, við Óperuna í Osló, leikhúsin í Chur og Basel og mun á Listahátíð Í Reykjavík stýra óperunni í Hörpu.Þá hefur hann á undanförnum misserum fengist við að skrifa tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús oghefur nýlokið tónlistarstjórnum í uppsetningu Þorleifs Arnar Þorleifssonar á Villiönd og Þjóðníðingi Ibsens fyrir Þjóleikhús Norðmanna í Osló. Hann var útnefndur Bjartasta Vonin í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2015. Bjarni Frímann hefur nokkrum sinnum komið fram á tónleikum á Ísafirði.

Pétur Björnsson er fæddur á Akranesi árið 1994. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2014. Hann útskrifaðist með framhaldspróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík haustið 2015 en kennarar hans þar voru Guðný Guðmundsdóttir og Ari Þór Vilhjálmsson. Frá og með sama hausti hefur hann stundað nám við Tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Elfu Rúnar Kristinsdóttur. Pétur hefur verið varamaður með hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 og virkur meðlimur í strengjasveitinni Skark frá árinu 2013. Þá hefur hann leikið með ensembleKONTRASTE hljómsveitinni í Nürnberg. Í nemendahljómsveitum Tónlistarskóla Reykjavíkur, Ungsveit sinfóníunnar og í háskólahljómsveitinni í Leipzig hefur Pétur gegnt starfi konsertmeistara. Sem sólisti hefur hann komið fram með Hljómsveit Tónlistarkólans í Reykjavík haustið 2014 er hann lék fiðlukonsert Antonin Dvorák og með Stradivari ensemble í Vancouver í febrúar 2016 er hann lék Rondo Cappricioso eftir Camille Saint-Saens. Pétur hefur sótt ýmiss námskeið á Íslandi og erlendis og sótt masterclassa hjá tónlistarmönnum í fremstu röð. Þar má nefna Christian Tetzlaff, Ilya Gringolts, Carolin Widmann, Jorja Fleezanis, Philippe Graffin, Sergei Ostrovsky, Robert Rozek og Mariana Sirbu.

 

Næstu tónleikar Tónlistarfélagsins verða hinir nánast árlegu MINNINGARTÓNLEIKAR UM SIGRÍÐI OG RAGNAR H. RAGMAR, sunnudaginn 9.október kl. 17.  Þar verður aðalflytjandi enginn annar en hinn sívinsæli ísfirski fiðluleikari Hjörleifur Valsson og með honum er tékkneskur píanóleikari.  Fleiri tónleikar eru á döfinni í nóvember og síðar í vetur sem verða auglýstir þegar nær dregur.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur