Píla Pína á Ísafirði í vor

19. janúar 2010 | Fréttir

Barnakór og Stúlknakór Tónlistarskóla Ísafjarðar auglýsa nú eftir söngfólki til að taka þátt í tónleikauppfærslu á ævintýrinu um hagamúsina Pílu pínu. Sagan og ljóðin eru eftir Kristján frá Djúpalæk en lögin eru eftir Ragnhildi Gísladóttur og Heiðdísi Norðfjörð. Platan með lögunum kom fyrst út árið 1980 en alla tíð síðan hefur þetta skemmtilega ævintýri og hugljúf lögin hrifið börn sem hafa orðið góðvinir Pílu, Gínu ömmu og annarra í músafjölskyldunni góðu.

Tónleikauppfærsla er ekki leikin uppsetning heldur er tónlistin flutt á tónleikasviði og sögumaður tengir lögin saman. Sögumaður verður Elín Sveinsdóttir og hljóðfæraleikur í höndum nemenda og kennara Tónlistarskólans. Umsjón og utanumhald uppfærslunnar er í höndum kórstjórans, Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur.
Stefnt er að því að tónleikarnir verði í Hömrum þegar líða tekur á vor, líklega seint í apríl.

Æfingar Barnakórsins eru á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 15.00-16.00 en Stúlknakórinn æfir á fimmtudögum kl. 16.30 -17.30 og föstudögum kl. 14.30-15.30.
Áhugasamir geta skráð sig á skrifstofu skólans í síma 4563925 eða mætt á kóræfingu í þessari viku og skráð sig hjá kórstjóra.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur