Sumar í Hömrum 2008 – Greinargerð

5. mars 2008 | Tónlistarfélagið

SUMAR Í HÖMRUM 2008
Greinargerð

Tónlistarfélag Ísafjarðar stóð í júlí og ágúst 2008 fyrir tónleikaröðinni Sumar í Hömrum, en tónleikaröðin hlaut styrk frá Menningarráði Vestfjarða vorið áður.
Alls voru haldnir 12 viðburðir, tónleikar, leikskólatónleikar, ljósmyndasýning o.fl.  og fóru þeir flestir fram í Hömrum, tónleikasal Tónlistarfélags Ísafjarðar.
Ungt listafólk var í meirihluta þeirra sem fram komu á sumartónleikunum, en einnig komu fram  listamenn sem lengi hafa verið í framvarðasveit íslensks tónlistarlífs.
Ókeypis aðgangur var á flesta viðburðina, sem voru yfirleitt vel sóttir, oftast um 40-60  manns, en ljóst að erlendir tónlistarmenn eru ekki eins vinsælir og heimafólk. Ferðamenn voru nokkuð áberandi í hópi tónleikagesta.
Tónleikarnir voru kynntir með plakötum, tölvupósti og bréfasendingum. Þeir fengu ágæta umfjöllun í fjölmiðlum hér vestra, á bb.is, skutull.is og í svæðisútvarpi. Einnig birtust fréttir um flesta tónleikana í Morgublaðinu, Fréttablaðinu og 24 stundum, stundum ítarleg umfjöllun. Blaðið Bæjarins besta birti ekki fréttir um tónleikana yfirleitt, en þar sárvantar dálk um það sem er á döfinni í menningarlífi á svæðinu. Margt áhugafólk um tónlist er eldri borgarar, sem sumir nýta sér ekki vefupplýsingar eða tölvupóst.
Þess má geta að sumardagskráin í Hömrum hófst raunar í júní með Tónlistarhátíðinni „Við  Djúpið“ og leiklistarhátíðinni „Act Alone“.

 

Viðburður nr. 1
Fimmtudagskvöldið 17. júlí – Kammertónleikar

       Tónlistarhópurinn  SLYNGUR, sem starfaði í sumar á vegum Kópavogsbæjar í Skapandi sumarstarfi. Hópinn skipa Ísfirðingurinn Arnþrúður Gísladóttir, sem leikur á þverflautu, en aðrir í hópnum eru Bjarni Frímann Bjarnason, víóla, J. Páll Palomares, fiðla, Viktor Orri Árnason, fiðla og Þorgerður Edda Hall, selló. Þau hafa öll stundað nám við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og sum þeirra þegar útskrifast þaðan. Á efnisskrá tónleikanna voru verk eftir Mozart, Beethoven og Tsjaíkovsky.
       Aðgangur var ókeypis.

 

Viðburður nr. 2
Fimmtudagskvöldið 24. júlí – „Píanóperlur”

       Einleikstónleikar Ísfirðingsins Önnu Áslaugar Ragnarsdóttur píanóleikara.
       Á dagskránni voru  ýmsar píanóperlur – Ítalski konsertinn eftir Bach, Sonata Pathétique eftir Beethoven, Barcarolle eftir Chopin og fleira.
Aðgangur var ókeypis.

 

Viðburður nr. 3
Föstudagskvöldið 25. júlí – „Engill og brúða I” – Ljósmyndasýning með tónlistarívafi
       Rúmenski ljósmyndarinn Octavian Balea sýndi 32 ljósmyndir, sem tengjast hinum frægu Goldberg-tilbrigðum eftir Bach. Tónlistarflutningur. Octavian Balea stundaði ljósmyndanám við listaháskóla í Búkarest og Weimar.
       Aðgangur var ókeypis.

 

Viðburður nr. 4
Laugardaginn 26. júlí – „Engill og brúða II”  – Harmóníkutónleikar

        Finnski harmóníkuleikarinn Terhi Sjöblom flutti verk eftir norræn tónskáld o.fl.
       Terhi Sjöblom hefur stundað harmóníkunám við Sibeliusarakademíuna í Helsinki og við Tónlistarháskólann í Weimar, Þýskalandi.
Aðgangur var ókeypis.

 

Viðburður nr. 5
Fimmtudagskvöldið 31 júlí – „Seiðandi sumarhljómar”
       Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir fiðluleikari og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari, fluttu verk eftir Mozart, Ravel og Sarasate.  Geirþrúður Ása, sem er af ísfirsku bergi brotin, lauk B.Mus. prófi frá Listaháskóla Íslands sl. vor, þar sem Auður Hafsteinsdóttir var aðalkennari hennar. Matthildur Anna lauk B. Mus. prófi í píanóleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2007, en stundar nú MA-nám í meðleik við Royal Academy of Music í London og útskrifast þaðan vorið 2009.
       Aðgangur var ókeypis.

 

Viðburður nr. 6
Fimmtudagskvöldið 7. ágúst –  „Fjörugir flaututónar”

       Hafdís Vigfúsdóttir, þverflautuleikari hélt einleikstónleika og á efnisskránni voru verk eftir Telemann, Kuhlau, Tomasi, Piazzolla og Takemitsu auk nýs verks eftir Ásrúnu I. Kondrup. Hafdís lauk B.Mus. gráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2005 en sl. þrjú ár hefur hún stundað framhaldsnám í flautuleik í París hjá Philippe Pierlot.

 

Viðburðir nr. 7-8
Þriðjudaginn 26. ágúst – „Heiðurs- og fagnaðartónleikar” – Tónleikar f. aldraða
       Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Melkorka Rún Ólafsdóttir þverflautuleikari fluttu verk eftir barokkmeistarann Telemann, en þær Melkorka og Elfa Rún eru sérhæfðar í flutningi slíkra verka, Elfa Rún vann hin frægu Bach-keppni  í Leipzig á síðasta ári og Melkorka hefur um árabil sótt tíma til Patricks Gallois í París. Tónleikarnir voru í Ísafjarðarkirkju en listakonurnar voru á tónleikaferðalagi til heiðurs íslenskum kirkjum og hlutverki þeirra í íslenskri tónlistarsögu.
       Aðgangur var ókeypis.
       Fyrr um daginn héldu listakonurnar stutta tónleika á dvalarheimili aldraðra í Bolungarvík.

 

Viðburður nr. 9
Fimmtudagskvöldið 28. ágúst – Trio Prisma
        TRÍÓ PRISMA er skipað Herdísi A. Jónsdóttur, víóla, Sólveigu A. Jónsdóttur, píanó, og Steef van Oosterhout sem leikur á ýmis konar slagverk, m.a. marimbu og íslenskt steinaspil.
       Á dagskránni voru m.a. þjóðlög og þekkt lög í nýstárlegum útsetningum.
       Aðgangseyrir kr. 1.500/1.000. Ókeypis f. skólafólk. Áskriftarkort Tónlistarfélagsins.
      
Viðburðir nr. 10-12
Föstudaginn 29. ágúst – Dúó Stemma
       Tvennir tónleikar fyrir leikskólabörn – Kynning f. tónlistarkennara

       Dúo Stemma er skipað Herdísi A. Jónsdóttur og Steef van Oosterhout, sem einnig eru í Trio Prisma. Þau hafa sett saman tónlistardagskrár fyrir börn, m.a. þekktar þulur, vísur og ævintýri, sem þau flytja á sérlega skemmtilegan og óhefðbundinn hátt. Þau hafa flutt slíkar dagskrár í um 70 leikskólum á Íslandi og í Hollandi, en auk þess komið fram við ýmis tækifæri, m.a. á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Sl. vor hlutu þau viðurkenningu IBBY-samtakanna á Íslandi fyrir framúrskarandi framlag til barnamenningar.


Tónlistarfélagið hafði forgöngu um að Ísafjarðarbær fengi dúóið til að halda tónleika fyrir leikskólabörn og áttu tónleikarnir að vera í Hömrum. Vegna óvenju slæms veðurs þennan dag voru tónleikarnir fluttir í leikskólana Eyrarskjól og Sólborg.


       Þá hélt dúóið sérstaka kynningu á hinu íslenska steinaspili og gerð tónlistarefnis við hæfi leikskólabarna fyrir tónlistarkennara.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is