A- A A+ A
Styrktarsjóđur Tónlistarskóla Ísafjarđar

Styrktarsjóður Tónlistarskóla Ísafjarðar var stofnaður 21.nóvember 1982. Hann hét upphaflega Styrktarsjóður húsbyggingar Tónlistarskóla Ísafjarðar, en var breytt eftir að Hamrar voru teknir í notkun haustið 1999.

Upphaf Styrktarsjóðsins var að árið 1982 komu tíu konur saman að áskorun Ragnars H. Ragnar, fyrrum skólastjóra TÍ, og stofnuðu styrktarsjóð húsbyggingar Tónlistarskólans. Þegar skólanum hafði svo verið úthlutað húsnæði í Húsmæðraskólanum Ósk einbeitti styrktarsjóðurinn sér að því að styrkja skólann varðandi tækja- og húsbúnað.
 

Fjáröflun styrktarsjóðsins hefur lagt sitt mark á bæjarlífið á Ísafirði og má þar nefna að í aldarfjórðung hefur Styrktarsjóðurinn haldið torgsölu á Silfurtorgi á aðventunni. Upphaflega fyrirmyndin að torgsölunni var jólamarkaður eins og best gerist í stórborgum Þýskalands með ilmi af glöggi og piparkökum, en ísfirska torgsalan hefur þróast með árunum og öðlast sín séreinkenni með kakói og lummum, og ekki síst laufabrauðinu sívinsæla sem gæðir markaðinn þjóðlegum blæ. Torgsalan hefur jafnan verið sjóðnum drjúg tekjulind enda hafa þeir fjármunir sem safnast hafa í sjóðinn skipt sköpum í uppbyggingu og velferð Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Hið sama má segja um jólakortin sívinsælu sem sjóðurinn hefur gefið út á hverju ári frá stofnun. Jólakortin eru jafnan skreytt með ísfirsku myndefni, gjarnan listaverkum eða gömlum myndum úr bæjarlífinu.

Styrktarsjóðurinn hefur staðið fyrir uppákomum af fjölbreyttasta tagi , einkum árin sem baráttan fyrir húnsæðinu stóð sem hæst. Má þar nefna vinsælar kabarettsýningar, sem haldnir voru ár eftir ár, flóamarkaði, sem stóðu yfir mánuðum saman, flengikústagerð, blómasölu, fiskimarkaði og margt fleira. Hugmyndaauðgi kvennanna sem stóðu fyrir sjóðnum voru engin takmörk sett.

Styrktarsjóðurinn lagði tugi milljóna í byggingarsjóð skólans en á síðustu árum hefur hann styrkt skólann með peningagjöfum og tækjakaupum. Haustið 2006 færði sjóðurinn skólanum kr.1.000.000 til flygilkaupa í samvinnu Minningarsjóð Ragnars H. Ragnar. Á 25 ára afmæli sjóðsins árið 2007 færði hann skólanum að gjöf skjávarpa, DVD spilara og hljóðupptökutæki eða svokallað ferðastúdíó. Á 60 ára afmæli skólans haustið 2008 færði sjóðurinn skólanum 600.000 króna peningagjöf.  Voru peningarnir nýttir til að búa til aðstöðu fyrir lúðrasveitarstarfið í kjallara skólans.

 

 


 til baka Prenta

Deila á Facebook

© Tónlistarskóli Ísafjarđar | Netfang: sigridur@tonis.is | Sími: 450-8340 | Validated XHTML and CSS | Vefsmíđi: Magnús Hávarđarson