Næstu dagar

10. október 2018 | Fréttir

 

Nú ríkir mikil tilhlökkun í Tónlistarskólanum, enda afmælishátíð á næsta leiti.

Dagana 11.-12. október verður kennsla ekki með hefðbundnu sniði, en þá munu kennarar fagna afmælinu með nemendum sínum.

Á sjálfan afmælisdaginn, fimmtudaginn 11. október verður ekki hefðbundin kennsla, en öllum nemendum er boðið að mæta klukkan 17:00 í Hamra, þar sem þeir hitta kennara sína og aðra nemendur skólans, æfa saman afmælissöng í tilefni dagsins og hlusta á stutta dagskrá sem er í höndum kóra skólans. Boðið verður upp á létta afmælishressingu en reiknað er með að yngri nemendur verði svo sóttir í Hamra af forráðamönnum kl. 17:40.

 

Föstudaginn 12. október verður heldur ekki hefðbundin kennsla en Tónlistarskólinn býður þeim grunnskólanemendum sem stunda nám við skólann upp á spunagleði í Hömrum. Þetta verður framkvæmt á skólatíma í samvinnu við grunnskólann.

Sama dag mun söngdeildin flytja stutta dagskrá á Hlíf og Eyri.

 

Laugardagurinn 13. október verður helgaður 70 ára afmælinu og þá er bæjarbúum og öðrum gestum boðið að fagna þessum tímamótum með nemendum og starfsfólki skólans. Lúðrasveitin mun fara um bæinn og blása inn veisluna en hátíðarhöldin í Hömrum hefjast klukkan 11:45 með lúðraþyt af svölum Tónlistarskólans. Að lokinni dagskrá í húsakynnum skólans um kl. 14:30 hefjast Heimilistónar en þá opna bæjarbúar heimili sín milli kl. 15:00 og 17:00 og bjóða upp á tónlistardagskrá heima í stofu. Fram koma nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar, heimilisfólk og gestir.

 

Kennarar hafa verið í sambandi við þá nemendur sem taka þátt í tónlistarflutningi í þessum hluta afmælishátíðarinnar, vegna æfinga, en eins og áður sagði fellur önnur kennsla niður þessa daga.

 

Endilega hafið samband með því að senda póst á netfangið tonis@tonis.is ef einhverjar spurningar vakna.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is