A- A A+ A
Skóli er fólk – ekki hús

(Ragnar H. Ragnar, fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar)
 

Starfsemi Tónlistarskóla Ísafjarðar
Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn elsti tónlistarskóli landsins, stofnaður árið 1948. Hann er til húsa að Austurvegi 11, í hinu sögufræga húsi sem áður hýsti Húsmæðraskólann Ósk. Þar er einnig tónleikasalurinn Hamrar sem byggður var við húsið árið 1999.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar er starfræktur í öllum þéttbýliskjörnum Ísafjarðarbæjar: Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Nemendur eru á fjórða hundrað en kennarar um 20 talsins af ýmsum þjóðernum.

 

Námsframboð er afar fjölbreytt og kennt á flest algeng hljóðfæri auk kennslu í einsöng og tónfræðigreinum. Samleikur og samsöngur setja sömuleiðis mikinn svip á skólastarfið. Þrír kórar starfa í skólanum, harmónikkusveit, tvær strengjasveitir, lúðrasveit og skólalúðrasveit, blokkflautukvartett og ýmsir minni hópar eftir því sem tækifæri og tilefni gefast.

 

Fjölbreytt og viðamikið tónleikahald er áberandi í skólastarfinu og lögð rík áhersla á að allir fái að spila á tónleikum. Jólatónleikar, miðsvetrartónleikar og vortónleikar eru fastir liðir en auk þess er fjöldi tónleika með hljómsveitum, kórum eða einstökum nemendum. Þá hefur Tónlistarskólinn nokkrum sinnum sett upp söngleiki, m.a. í samvinnu við Litla leikklúbbinn.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar á gott samstarf við aðra skóla og stofnanir á ýmsum sviðum. Skólinn annast hópkennslu í hljóðfæraleik fyrir nemendur í 4. bekk Grunnskólans á Ísafirði sem og tónmenntakennslu í 5. bekk. Þá geta nemendur sama skóla í 1.-7. bekk sótt spilatíma á skólatíma. Nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna og menntaskólanemar geta fengið tónlistarnámið metið sem valeiningar.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar er opinber samstarfsaðili Listaháskóla Íslands, en allmargir nemendur skólans hafa farið í framhaldsnám þar eðaí Tónlistarskóla FÍH með góðum árangri.


til baka Prenta

Deila á Facebook

© Tónlistarskóli Ísafjarđar | Netfang: sigridur@tonis.is | Sími: 450-8340 | Validated XHTML and CSS | Vefsmíđi: Magnús Hávarđarson